28.9.11

Flutningar og reglugerðir

Já, hér er ég komin í nýja herbergið,  búin að taka uppúr síðustu töskunni og umþað bil að ná hjartslættinum í eðlilegt horf eftir að bera síðasta „smá rest“ upp stigana. Það var þyngra en ég hélt þar sem allt baðdótið og maturinn úr ísskápnum voru í töskunni... og svo var ég með tvær töskur á öxlunum líka.. þannig að þetta voru jafnvægisæfingar í takt við puðið að bera þetta upp.  EN upp er þetta komið allt nema oggulítil rest sem er ennþá niðurfrá.. en hún kemst hæglega í axlartösku :)
Ég beið í morgun eins og aðra morgna eftir því að pósturinn myndi skila af sér pakkanum mínum. Ekki kom hann núna frekar en í gær. Ég ákvað svo að vera ekki að þessu... drífa mig bara í að flytja og fá Helgu eða einhvern í að hringja fyrir mig í póstinn.  Ég þrumaði hérumbil öllum bókunum í fína bakpokann... þær eru orðnar nokkuð margar því bæði Helga og Mæja hafa lánað mér málfræði- og orðabækur til að glugga í.  Pokinn seig heldur betur í.. ég labbaði á næstu strætóstöð og beið.. pokinn seig enn meira í svo ég lagði hann á stéttina. Svo kom strætó - alveg yfirfullur af krökkum. Nokkrir fóru út og ég ætlaði inn í staðin.. þá komu krakkar aðvífandi sem ruddust framfyrirmig og stóðu svo þannig að ekki var séns að komast inn.
(smá innskot um strætó:  í strætó hérna er maður með miða og þegar komið er inn í strætóinn þarf að stimpla hann í þartilgerðri vél sem prentar á hann dagsetningu og tíma, eftir það gildir miðinn í 90 mínútur, fólk sér um það sjálft að vera með þetta á hreinu en eftirlitsmenn geta birst hvenær sem er og krafist þess að sjá stimplaðan miða)
Framhald af sögunni... ég varð því eftir á strætóstoppistöðinni og fannst ítalskir ormar ekki bera virðingu fyrir „fullorðnu fólki“.  Næsti strætó kom aðvífandi, hann var enn fyllri en hinn en í geðvonskunni tókst mér að troða mér innfyrir dyrnar, en lengra var ekki sjens að komast. Ekki fyrr en á þarnæstu stöð, þar fóru hérumbil allir krakkarnir úr vagninum og ég dreif mig að stimpilklukkunni og setti miðann í... þá þrumaði reiður kall við hliðina á mér... blablabla piú tardi blablabla... piú tardi þýðir „of seint“ svo ég sá að þetta myndi  vera eftirlitsmaðurinn ógurlegi. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að ég hefði bara ekki komist fyrr að vélinni fyrir troðningi en honum varð ekki haggað „Reglugerðir, reglugerðir“.  Þau voru tvö þarna sem hentu mér og 4 öðrum útúr vagninum og drógu upp sektarbækurnar. Þar sem ég var ekki með passann minn heldur bara þau skólaskilríki sem ég er komin með þurfti ég að borga á staðnum, það vildi svo til að ég var búin að taka út pening fyrir tryggingunni hérna svo ég var með aur...   Fargjaldið í strætó er 1.20 Evrur pr miða ef keyptur er stakur miði.  Sektin sem ég fékk fyrir að vera „óstimpluð“ var litlar 50 evrur!!!  Miðað við sögur sem ég hef heyrt þá slapp ég bara sæmilega... líklega hef ég bara verið heppin að hafa ekki orðaforðann í að rífast við eftirlitið.. þær voru gargandi fullum hálsi hinar sem var verið að sekta þegar ég fór... það ku ekki lækka sektina..
Ég þarf að fara á skólaskrifstofuna eftir tíma á morgun og athuga hvort það fari ekki að líða að því að skólaskírteinið mitt verði til. Þegar ég er komin með það get ég t.d. keypt afsláttarkort í strætó... og keypt mat á tilboði í völdum matstofum...
Að öðru leyti hafa flutningar gengið vel. Ég hef dröslast með töskurnar út á stoppistöð, með strætó upp á aðalbrautarstöð, dregið þær þar yfir á næstu stöð og beðið og svo með strætó þaðan og hingað heim.. dregið þær hérna niður götuna og borið svo upp þessa 13 stiga sem liggja hingað upp.   Dálítið töff að bera þetta upp stigana :) en þvílíkur munur á því að vera hér eða þar... ég skal setja inn myndir fljótlega til að sýna muninn. Þetta er íbúð með stórum herbergjum  og það er hægt að skipta um skoðun og allt !!! Ég er í minnsta herberginu en bara það er stærra en öll íbúðarholan sem ég var í niðurfrá :)  Svo er stórt bað og stórt eldhús og hol...  hátt til lofts, fullt af lofti og fullt af plássi :)
Helmingurinn af íbúðinni "holunni":


Smá partur af herberginu í Via Tavanti:

T.d. akkúrat helmingi stærra rúm (80->120cm)
Fleiri myndir síðar, annað hvort hér eða á feisbúkk...

Það er ofsa mikil umferð hérna líka eins og allsstaðar í Flórens. En hér eru þó „bara“ ökutæki, ekki talandi og gargandi og syngjandi fólk allan sólarhringinn. Dálítið ryk af umferðinni... en ég verð þá bara dugleg að þurrka af... eða tek ítölskuna á þetta og læt það bara vera skítugt...

1 comment:

  1. Það er svo yndilegt að lesa færslurnar þínar, lifi mig alveg inn í þetta :) Knús í höllina flottu fínu.

    Hulda B

    ReplyDelete